JÖKLAR Á ÍSLANDI

eftir Helga Björnsson


Innbundin
479 bls.
ISBN: 978-9935-10-004-7
Leiðbeinandi verð: 19.990 Kr.
 

Jöklar á Íslandi er mikið rit byggt á áratuga rannsóknum Helga Björnssonar og samstarfsmanna hans við Háskóla Íslands og víðar. Bókin lýsir jöklum þessa lands og sambúð þjóðarinnar við þá frá upphafi byggðar til okkar daga, hvernig jöklar hafa mótað landið og eytt. Bókin segir sögu þekkingar¬öflunar og skilnings á jöklum frá því fyrst var farið að rannsaka þá fram til nútímarannsókna. Rakin eru spor löngu horfinna jökulbreiða, hulunni svipt af landinu undir jöklum Íslands og greint frá líklegri framtíð þeirra.

Myndefni er fjölbreytt, ljósmyndir, skýringarmyndir, landakort, gervihnattarmyndir og þrívíð kort af landslagi undir jöklum sem nú birtast í fyrsta sinn almenningi á prenti. Enn geta menn ekki litið þann hluta Íslands augum með öðrum hætti.

 Helgi Björnsson er á meðal fremstu fræðimanna á sínu sviði. Í hartnær fjóra áratugi hefur hann unnið að jöklarannsóknum á Íslandi og kynnt almenningi rannsóknir sínar með fyrirlestrum og fræði¬greinum. Á ferðum sínum um Ísland skilur Helgi sjaldan myndavélina við sig, og því falla ljósmyndir og texti saman í eina heild í þessari bók.

 
Land vitnar um tilvist jökla löngu eftir að þeir eru horfnir. Þeir hafa tálgað berg, nagað skálar, brotið niður hamraveggi og skilið eftir hvassa fjallstinda, skörðóttar og stórskornar höggmyndir, grafið djúpa og þrönga firði langt út á landgrunnið, sorfið dalbotna og trog sem nú eru fyllt stöðuvötnum. Sé litið nær sjást smágerðari ummerki: rákaðar klappir, brot höggvin í berg, slípuð hvalbök og grettistök. Jökulár hafa rofið gljúfur, oft í hamfaraflóðum, og dreift seti um sanda. Víða sjást ummerki eldgosa undir jökli. Móbergshryggir rísa yfir gossprungum og brattir stapar, mörg glæsilegustu fjöll landsins, gnæfa hátt yfir umhverfi og vitna um þykkt ísaldarjökuls. Jökulgarðar sýna fyrri mátt skriðjökla. Í ferskvötnum og sjó liggja setlög sem jökulárnar hafa borið fram. Enn ber flóra landsins merki þess að gróður eyddist á jökulskeiði.(Úr formála)

Bókin er 479 bls. í stóru broti.
Hönnun og umbrot: Næst/Líba Ásgeirsdóttir. Skýringarmyndir: Næst/Björn Valdimarsson. Kortagerð: Fixlanda/Hans H. Hansen. Þrívíddarmyndir af jöklum: Helgi Laxdal.
Prentun og bókband: Prentsmiðjan Oddi hf.

BÓKAÚTGÁFAN OPNA ehf. / SKIPHOLTI 50 B / 105 REYKJAVÍK / SÍMI 578 9080 / KT. 501207-1010 / opna@opna.is
© 2008 Uppsetning og hönnun Hýsir.is