Myndlist í þrjátíu þúsund ár
Listsköpun mannsins í tíma og rúmi

Innbundin
1064 bls.
ca 30 x 30 x 7,5 cm, texti og litmyndir
ISBN: 978 9935 10 002 3
Leiðbeinandi verð: 14.990 kr.Þegar flett er eitt þúsund blaðsíðum sem sýna listaverk 30.000 ára frá öllum heimshornum sést hvað margt sameinar mannfólkið á ólíkri stund og stað. Verkin í þessari miklu bók endursegja sögur af lífi og dauða, ást, gleði og galskap en þau tjá líka ótta við hið óþekkta og síðast en ekki síst trú á æðri máttarvöld.

Á hverri síðu er ljósmynd af einu verki og umfjöllun um verkið í knöppum en aðgengilegum texta – samtals eitt þúsund listmunir. Verkin eru í tímaröð svo lesandi sér hvað ólíkar þjóðir og einstaklingar hafa verið að fást við á svipuðum tíma. Hvert verk er valið út frá sérstöðu þess í lista- og menningarsögunni og gefur góða mynd af list- og handverki viðkomandi svæðis.

Hér er þó ekki eingöngu um myndir af listaverkunum að ræða heldur eru verkin jafnframt spegill á sögu mannsandans frá því 28 000 árum f.Kr. Textinn sem fylgir hverri mynd segir frá bakgrunni verksins, notkunargildi eða ástæðum þess að það var unnið. Í sérstökum texta kemur fram upprunaland, stærð, efni, varð¬veislustaður, menningarskeið og höfundur ef hann er þekktur. Í bókarlok eru tímaásar sem auðvelda lesendum að skoða samhengið í listasögunni. Orðalisti yfir hugtök og heiti fylgir og atriðisorðaskrá.

Bókin lýsir frá myndverkum allt frá fyrstu hellamyndum til hugmynda¬listar nútímans, fjölmörgum þekktum meistaraverkum sem lesendur hugsanlega þekkja en fá nú tækifæri til að kynnast enn betur, öðrum síður þekktum og ýmsum sem koma verulega á óvart. Hér er það sem var efst á baugi í myndlistariðkun Japana, Íraka, Perúmanna og Nígeríubúa á þeim tíma sem verið var að klappa Venus frá Míló í stein í Grikklandi, kínversk kvennahljómsveit máluð á marmara skömmu áður en Bayeux-refillinn var saumaður og samtímalistaverk okkar sem krafist var að yrði eyðilagt.

Í Myndlist í þrjátíu þúsund ár geta ungir sem aldnir fundið sín uppáhaldsverk og sökkt sér í tímabil og landsvæði sem vekja áhuga þeirra. Fjölbreytni myndverkanna og textans gera bókina að uppsprettu sem hægt að leita í aftur og aftur til að fræðast, auðga andann og gleðjast yfir því fagra. Þetta eru 6 kíló af auðlegð sem endist lengi, lengi.

Bókin er gefin út í samstarfi við Phaidon Press í London og kallast 30.000 Thousend Years of Art á ensku. Fjöldi sérfræðinga á sviði lista- og menningarsögu samdi textann og hópur reyndra þýðenda sá um að íslenska verkið. Bókin er prentuð í Kína. Eyjólfur Jónsson sá um uppsetningu á íslenskum texta og Líba Ásgeirsdóttir hjá auglýsingastofunni Næst hannaði kápu.

BÓKAÚTGÁFAN OPNA ehf. / SKIPHOLTI 50 B / 105 REYKJAVÍK / SÍMI 578 9080 / KT. 501207-1010 / opna@opna.is
© 2008 Uppsetning og hönnun Hýsir.is