|
JÓR!
– Hestar í íslenskri myndlist
innbundin 112 bls ISBN/VÖRUNR.: 978-9935-10-043-6 Leiðbeinandi útsöluverð: 4990 kr.
Hestar hafa verið myndlistarmönnum hugleiknir frá örófi alda. Elsta þekkta styttan af hesti er lófastór, tálguð í mammútstönn fyrir á að giska 30 þúsund árum. Menn hafa hrifist af vilja og fjöri hestakynsins og þessar skepnur hafa jafnframt öðlast táknrænt gildi og tekið á sig goðkynjaðar myndir.
Hér á landi skoða listamenn hestana jafnan út frá persónulegum sjónarhóli. Íslenskir hestar eru iðulega sýndir sem sjálfstæðir einstaklingar, traustir og þrautgóðir, dregnir skýrum dráttum. Oft eru þetta raunveruleg hross sem listamennirnir þekkja, myndirnar sýna einstaka persónuleika með margháttaða skaphöfn. En hestar hafa einnig táknræna merkingu sem sótt er bæði í gríska og norræna goðafræði, sem og íslenskan sagnaheim, og í hugskoti listamanna verða til furðuskepnur af hestakyni, sem ekki er alltaf auðvelt að átta sig á.
Markmið Aðalsteins Ingólfssonar með sýningunni JÓR! og samnefndri bók er tvíþættur: Dregin er upp mynd af því margvíslega hlutverki sem hesturinn hefur gegnt í örum þjóðfélagsbreytingum síðustu 100 ára eða svo. Jafnframt spanna verkin nánast alla sögu og þróun íslenskrar myndlistar á þessum sama tíma, með fjölbreytilegum stefnum. Hér er lýst heillandi heimi.
|
|