Þýsk-íslenska orðabók – Wörterbuch Deutsch-Isländisch
 03.12.2008
 LÖNG BIÐ Á ENDA
Þýsk-íslenska orðabók – Wörterbuch Deutsch-Isländisch Hér er á ferð glæný og afar vönduð orðabók sem geymir yfir 65 þúsund uppflettiorð og orðasambönd úr grunnorðaforða þýskrar tungu með dæmum úr nútímamáli. Áhersla er á sérhæfðan orðaforða ýmissa greina, svo sem ferðamennsku, viðskipta, tölvufræði og dýrafræði. Þá er málfræðiyfirlit á þýsku og íslensku og listi yfir óregluleg sagnorð, bæði á íslensku og þýsku. Með hverju uppflettiorði er framburður sýndur í alþjóðlegri hljóðritun svo og atkvæðaskipting. Óregluleg beyging nafnorða, sagnorða og lýsingarorða er gefin upp.
Bókin er gefin út í samvinnu við þýska orðabókaforlagið Pons og unnin af hópi íslenskra og þýskra sérfræðinga í ritstjórn Heimis Steinarssonar. Aðrir ritstjórar og samverkamenn voru: Bernd Hammerschmidt, Claudia Overesch, Elsa Björk Diðriksdóttir, Erla Hallsteinsdóttir, Franz Gíslason, Hildur Karítas Jónsdóttir, Jóhann Guðnason, Jón Gíslason, Katrín Matthíasdóttir, Marieluise Schmitz, Matthías Frímannsson, Monika Finck, Valgerður Bragadóttir. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands veittu aðstoð við vinnslu bókarinnar sem kemur út samtímis í Þýskalandi og á Íslandi. Bókin naut styrkja úr sjóðum Robert Bosch Stiftung og Stiftung Würth. Bókin er 966 blaðsíður í þægilegu broti, prentuð í tvílit og allt útlit er afar notendavænt. Svona ítarleg og vönduð þýsk-íslensk orðabók hefur ekki komið út á Íslandi í meira en 50 ár eða síðan bók Jóns Ófeigssonar kom út endurskoðuð árið 1957. Líba Ásgeirsdóttir hannaði íslenska kápu. Clausen & Bosse í Þýskalandi prentuðu.

BÓKAÚTGÁFAN OPNA ehf. / SKIPHOLTI 50 B / 105 REYKJAVÍK / SÍMI 578 9080 / KT. 501207-1010 / opna@opna.is
© 2008 Uppsetning og hönnun Hýsir.is