19.05.2010
 Helgi Björnsson hlaut viðurkenningu fyrir bestu fræðibók ársins 2009
Félag bókasafns- og upplýsingafræða veitti í gær, 18 maí, viðurkenningu fyrir bestu frumsömdu íslensku fræðibók ársins 2009. Fyrir valinu varð ritið Jöklar á Íslandi eftir Helga Björnsson.
Matsnefndin skoðaði frumsamdar íslenskar fræðibækur ársins 2009 fyrir fullorðna með hliðsjón af þeim starfs- og viðmiðunarreglum sem hún hefur sett sér og stjórn Upplýsingar hefur staðfest. Alls komust þrjú ritverk í undanúrslit sem nefndin skoðaði ofan í kjölinn og varð fyrrnefnd bók fyrir valinu.

Í yfirliti matsnefndar segir;
„Ritið Jöklar á Íslandi byggir á áratuga rannsóknum Helga Björnssonar, jöklafræðings og samstarfsmanna hans við Háskóla Íslands og víðar. Ritið skiptist í ellefu meginkafla. Öll meðferð heimilda er til mikillar fyrirmyndar. Skráin yfir sérheiti og atriðisorð er notadrjúg, þar sem nákvæmari efnisatriði er að finna undir fjölmörgum uppflettiorðum og auðveldar það aðgengi lesandans að efni bókarinnar.

Ritið er ríkulega myndskreytt og eru flestar ljósmyndirnar teknar af höfundi sjálfum. Myndirnar falla vel að innihaldi og umbrotsvinna er unnin af smekkvísi. Margar myndaopnur eru í bókinni með glæsilegum litmyndum. Auk þess eru fjölmörg myndrit og skýringarmyndir sem gefa bókinni aukið fræðigildi. Rammagreinar eru víða með sagnfræðilegu ítarefni og útskýringum sem brjóta upp textann og gera viðfangsefnið aðgengilegra.

Bókin er rituð á fallegu máli og gagnast bæði leikum og lærðum sem áhuga hafa á íslenskum jöklum. Litið til nútímans og þeirrar ógnar sem nú steðjar að jöklunum með hlýnandi loftslagi og hafa mun áhrif á allt mannkyn. Ritið er í einu bindi, í fremur stóru broti og frágangur allur er til fyrirmyndar. Vandað er til pappírs og bókbands og gerir það bókina að eigulegum prentgrip.

Notagildi ritsins er mikið fyrir þá sem vilja kynna sér íslenska jökla og hvaða áhrif þeir hafa haft á lífsskilyrði Íslendinga frá landnámi. Jöklarnir móta landið okkar og ásýnd þeirra er síbreytileg. Þeir vekja aðdáun okkar og forvitni, í þeim getur leynst ógnarkraftur eins og landsmenn hafa upplifað með gosinu í Eyjafjallajökli nú á vordögum.

Jöklar á Íslandi er aðgengileg og falleg handbók um íslenska jökla og undraveröld íssins. Mikil alúð hefur verið lögð í gerð hennar og allan frágang, með fagmennsku og vandvirkni í fyrirrúmi."

Helgi Björnsson hefur áður hlotið bókmenntaverðlaun ársins 2009 fyrir Jökla á Íslandi í flokki fræðirita og bóka almenns eðlis og einnig bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana.

Við óskum Helga innilega til hamingju með viðurkenninguna.

BÓKAÚTGÁFAN OPNA ehf. / SKIPHOLTI 50 B / 105 REYKJAVÍK / SÍMI 578 9080 / KT. 501207-1010 / opna@opna.is
© 2008 Uppsetning og hönnun Hýsir.is