|
|
|
07.01.2010 |
Saga Eddu Heiðrúnar |
Eftirfarandi frétt birtist á baksíðu Morgunblaðsins 7. janúar eftri Kolbrúnu Bergþórsdóttur blaðamann og með ljósmynd Árna Sæbergs.
„ÞETTA verður skemmtileg, bjartsýn og mjög óhefðbundin ævisaga,“ segir Edda Heiðrún Backman en ævisaga hennar mun koma út hjá bókaforlaginu Opnu fyrir næstu jól. Skrifað var undir samning í gær á þrettánda degi jóla. Það er Bergþóra Jónsdóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu, sem skráir sögu Eddu.
Á liðnum árum hafa bókaforlög margoft gert Eddu tilboð um skráningu ævisögu hennar en hún hafnaði þeim öllum. „Núna segi ég já vegna þess að ég fann réttu manneskjuna og svo hef ég núna góðan tíma til að sinna verkinu. Svo er það ekki alltaf þannig að maður taki sjálfur ákvörðun heldur taka ákvarðanirnar mann,“ segir Edda. |
|
„Eins og Edda segir verður bókin fyrst og fremst skemmtileg því Edda er svo skemmtileg kona,“ segir Bergþóra. „Allir þekkja hana sem mikinn listamann og baráttukonu en hún hefur alla tíð verið mikill húmoristi og hefur þessa björtu og jákvæðu sýn á lífið sem þjóðinni veitir ekki af að tileinka sér núna.“ Sigurður Svavarsson er útgefandi Opnu sem mun gefa bókina út. Hann segir: „Mér finnst dæmigert fyrir Eddu að hún velur sinn tíma til að segja sögu sína. Hún vissi sem var að saga hennar yrði einhvern tímann sögð og vildi taka þátt í því. Hún valdi höfund sem hún treystir og í sameiningu völdu þær Bergþóra að vinna með okkur hjá Opnu sem við erum ákaflega stolt af. Þegar við hittumst fyrst til að ræða útgáfu bókarinnar vorum við öll sammála um að um svona einstaka konu mætti ekki skrifa hefðbundna ævisögu. Við viljum gera óvenjulega bók þar sem myndir fá að njóta sín, þar á meðal myndir sem Edda hefur sjálf gert. Við höfum grafískan hönnuð með okkur frá byrjun. Metnaður okkar er að gefa út bók sem verður eiguleg og þess virði að grípa í aftur og aftur.“
|
|
|
|
|
|
|