Hafþór Yngvason og Sigurður Svavarsson handsala samning Opnu og Listasafns Reykjavíkur
 23.09.2008
 Listasafn Reykjavíkur og Opna hefja samstarf
Listasafn Reykjavíkur og Bókaútgáfan Opna hafa gert með sér samstarfssamning um útgáfu og dreifingu á bókum sem tengjast sýningum safnsins og listaverkum í eigu þess. Fyrsta bókin sem þetta samstarf leiðir af sér kemur út næstkomandi laugardag. Bókin ber heitið AUGNASINFÓNÍA – Myndlist Braga Ásgeirssonar í sextíu ár. Sama dag opnar samnefnd sýning í Listasafni Reykjavíkur – Kjarvalsstöðum.
Samvinna Listasafns Reykjavíkur og Opnu verður með ýmsu móti. Til stendur að Opna og Listasafnið muni, sem fyrr segir, gefa bækur út í sameiningu í tengslum við sýningar þess. Í öðru lagi að Opna muni vinna bækur sem byggja á efni úr fórum safnsins. Þá mun Opna einnig koma útgáfuefni sem þetta samstarf gefur af sér á framfæri við erlend útgáfufyrirtæki hafi það klára skírskotun út fyrir landsteinana.

Hafþór Yngvason, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur: „Það er mjög mikilvægt að koma útgáfumálum safnsins í traustar hendur fagfólks. Við erum nú þegar með mörg álitleg verkefni á teikniborðinu sem eiga vonandi eftir að enda sem glæsileg útgáfuverk sem ná til margra.“
Sigurður Svavarsson, útgefandi Bókaútgáfunnar Opnu: „Það er áhugavert verkefni að sinna útgáfu listaverkabóka í samvinnu við jafn öflugt safn og Listasafn Reykjavíkur er. Ég tel að þessi samvinna eigi eftir að verða báðum aðilum til hagsbóta og mér finnst til fyrirmyndar hjá Listasafni Reykjavíkur að leita samstarfs við einkafyrirtæki með þessum hætti.“

BÓKAÚTGÁFAN OPNA ehf. / SKIPHOLTI 50 B / 105 REYKJAVÍK / SÍMI 578 9080 / KT. 501207-1010 / opna@opna.is
© 2008 Uppsetning og hönnun Hýsir.is